Um suma veiðistaði þegir maður, og segist bara hafa verið „fyrir norðan“. Svartá í Bárðardal er urriðaveiðiparadís í Þingeyarsýslu. Fáir vita hvar hún er, enn færri hafa komið að henni og lengi vel var hún hálfgert leyndarmál sem veiðimenn töluðu ekki mikið um. En nú verður ekki lengur undan vikist að draga þessa perlu fram í dagsljósið, sem stundum hefur verið kölluð prinsessan, við hlið drottningarinnar í næstu sveit.
Á kynningu í Árósum í kvöld, miðvikudag 22. mars, ætla þrír veiðifélagar að segja frá ánni, fara yfir veiðistaðina, flugurnar og sýna myndir. Þetta eru Jón Aðalsteinn Þorgeirsson, Sigbjörn Kjartansson og Baldur Sigurðsson. Kynningin hefst kl. 20:00.