Hátíðarkveðja

Með hækkandi sól fer félagsstarf Ármanna fyrir alvöru á skrið, dagskrárliðir frá áramótum skipta tugum og allir félagsmenn ættu að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi. Meðal dagskrárliða sem mælst hafa með eindæmum vel fyrir eru veiðistaðakynningar félagsmanna og gesta sem haldnar hafa verið í Árósum það sem af er vetrar. Enn eru örfá laus pláss í dagskránni til vors fyrir fræðsluerindi sem félagsmenn gætu hugsað sér að annast. Það eina sem þarf að gera er að setja sig í samband við stjórnina hér á síðunni.

Á aðalfundi félagsins á vori komanda er meðal annars kjör þriggja stjórnarmanna og rennur framboðsfrestur út þann 15. janúar. Þegar hefur eitt framboð borist og hvetur stjórn félagsmenn til að nýta næðisstundir hátíðanna og íhuga nú vel og vandlega hvort ekki leynist stjórnarmaður innra með sér. Félagið býr vel að öflugum félagsmönnum sem leggja starfi þess lið með einum eða öðrum hætti eins og sannast hefur í gegnum tíðina. Félagsskapurinn okkar hefur allt frá því hann var stofnaður árið 1973, vakið athygli fyrir öflugt starf, samheldni og skýr markmið. Þetta góða starf er ekki eins manns eða fárra og liður í að viðhalda þessu er sú regla að seta stjórnarmanna er takmörkuð við þrjú kjörtímabil í senn sem tryggir eðlilega endurnýjun og ferska vinda í forystusveit félagsins. Nú er tækifæri fyrir félagsmenn að leggja sitt að mörkum til endurnýjunar stjórnar.

Útlit er fyrir að veiðistaðaframboð Ármanna á komandi sumri verði með allra hefðbundnasta móti og forsala veiðileyfa verði bundin við höfuðvígi okkar, Hlíðarvatn í Selvogi. Ekki er loku fyrir það skotið að önnur svæði bjóðist félagsmönnum þegar nær vori dregur, en það er ekki um auðugan garð að gresja í framboði veiðileyfa á sanngjörnu verði þessi misserin. Illu heilli hefur verð þeirra enn verið að rísa og má með sanni segja að sífellt verði erfiðara um vik að uppfylla 2.gr. laga okkar þar sem markmið félagsins eru tilgreind, m.a. …að stuðla að því að félagar geti stundað stangaveiði fyrir hóflegt verð.

Að þessu sögðu, vill stjórn Ármanna óskar félagsmönnum og velunnurum þess ánægjulegrar hátíðar og velfarnaðar á komandi ári með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Hittumst heil á nýju ári.

Kristján Friðriksson #861

Hlíðarsel við Hlíðarvatn í Selvogi

Skildu eftir svar