Árgjöld 2019

Þá ætti fyrsti vorboðinn að vera að detta inn i heimabanka félagsmanna í formi árgjalds Ármanna. Árgjaldið er grunnurinn að félagsstarfi okkar og eina stöðuga tekjulind félagsins. Gjaldkeri félagsins hefur lýst ánægju sinni með það hve góð skil hafa verið á árgjaldinu undanfarin ár og hve lítið hann hefur þurft að standa í innheimtu á þeim árstíma þegar allir heilvita menn sinna fluguhnýtingum. Félagsmenn geta fundið greiðslubeiðni í heima- eða netbanka sínum með gjalddaga 10. janúar og eindaga 10 dögum síðar, þ.e. 20. janúar.

Fyrir dyrum stendur forúthlutun veiðileyfa og vert er að geta þess að forsenda úthlutunar er greitt félagsgjald. Aðild að Ármönnum fylgja að auki ýmis fríðindi, svo sem aðgengi að öflugu félagsstarfi, kynningum, kennslu, veiðileyfi í Framvötnum að Fjallabaki að ógleymdum afsláttarkjörum og tilboðum til félagsmanna hjá velunnurum okkar.

Veiðileyfi sumarsins verða kynnt á félagsfundi í Árósum þann 9. janúar kl. 20:00 Þar verður nýjum félagsmönnum jafnframt leiðbeint um tilhögun umsókna og hvernig staðið skal að þeim og eru þeir því hvattir sérstaklega til að mæta. Undanfarin ár hafa um það bil 60% leyfa verið seld í forúthlutun og önnur 15% í sölu til félagsmanna að úthlutun lokinni. Þau leyfi sem eftir standa fara síðan í almenna sölu á nokkuð hærra verði til utanfélagsmanna.

Félagsskírteini verða aðgengileg skuldlausum félagsmönnum í Árósum fljótlega eftir að úthlutun veiðileyfa lýkur, en umsóknarfrestur þeirra rennur út á miðnætti þann 23. janúar. Ósótt félagsskírteini verða senda í pósti til félagsmanna. Þeim sem skipt hafa um heimilsfang frá síðasta ári er bent á að senda félaginu upplýsingum um nýtt og betra heimilisfang svo fljótt sem verða má.

Háttvirtur gjaldkeri félagsins við sannkallaðar flugu-veiðar á Skagaheiði eða við innheimtuaðgerðir

Skildu eftir svar