Framboð til stjórnar – Jóhann Hannesson

Eins og kunnugt er þá munu Ármenn kjósa þrjá nýja stjórnarmenn á komandi aðalfundi. Framboðsfrestur til stjórnarkjörs rennur út þann 15. janúar og þegar hafa borist tvenn framboð. Hið fyrra er frá Jóhanni Hannessyni, félaga #905 sem gekk í félagið árið 2017. Stjórn lék forvitni á að vita aðeins meira um Jóhann og hann sendi okkur þennan bráðskemmtilega pistil um sjálfan sig sem við birtum hér.

Jóhann Hannesson, greinilega í góðum félagsskap

Ég held ég hafi ekki verið orðinn sex ára þegar ég reyndi fyrir mér með veiðistöng. Man eiginlega bara eftir að hafa verið blautur, kaldur og fisklaus í átta ár, nema þá að ég hafi verið þjakaður af mýflugum og kófsveittur í lopapeysu, einnig fisklaus. Þessari vosbúð lauk ekki fyrr en ég var fermdur og landaði þrettán urriðum í Litla Fossvatni. Það vatn hefur allar götur síðan verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Veiðidellan tók sér ekki almennilega bólfestu fyrr en ég fékk fisk á flugu. Pabbi gaf mér Gray´s stöng 7/8 og Reddington hjól í afmælisgjöf þegar ég varð þrítugur. Með þessum tækjum veiddi ég vænan sjóbirting í Langadalsá í Stóra-Langadal á Skógarströnd. Þetta fannst mér vera önnur íþrótt og mun skemmtilegri en sú að veiða á spún eða maðk. Þetta fræ veiðidellunnar skaut þarna rótum, en fór lítið að spíra fyrr en tíu árum síðar, sumarið 2017, þegar þetta heltók mig og hef ég eiginlega veitt hressilega yfir mig síðustu tvö sumur. Stærsti vatnafiskurinn sem ég hef veitt kom upp úr Þingvallavatni, þar sem Ölfusvatnsáin rennur í það. Mér var mikið í mun að koma honum lifandi í sín heimkynni og mældi hann ekki þess vegna, öðruvísi en að smella af honum mynd við hlið stangarinnar. Stærsti fiskur sem ég hef landað upp úr straumvatni kom á land við bakka Varmár. Ég hef sömu sögu að segja af þeim Sjóbirtingi eins og þá af urriðanum úr Þingvallavatni. Ég hef ekki önnur gögn en mynd af dýrinu og samanburð við stöngina, en góð ágiskun væri á bilinu 10 – 14 pund. Það sem ég þarf ekki að giska á eða geta mér til um er spennan, gleðin og öll sú magnaða upplifun sem ég sæki aftur og aftur í og heldur mér við efnið, þó svo að ársfjórðungur sé frá síðustu töku og sennilega annað eins fram að þeirri næstu. Ég lít svo á það sem alvöru skuldbindingu við þessa veiðidellu, eða lífstíl, að hafa gengið í raðir Ármanna og það í félagi við föður minn, sem er að endurnýja kynni sín eftir langa fjarveru. Mér finnst starfið allt til fyrirmyndar og er ég allur að vilja gerður að ljá því krafta mína, þó svo ég hafi enga hugmynd í dag hvernig hægt sé að gera það betra.

Stjórn Ármanna þakkar Jóhanni fyrir pistilinn og framboðið og vill nýta tækifærið til að minna á að framboðsfrestur rennur út á miðnætti á morgun, þriðjudaginn 15. janúar.

Skildu eftir svar