Framboð til stjórnar – Sigurður Kristjánsson

Skjótt skipast veður í lofti og nú þegar skilafrestur framboða til stjórnarkjörs er að renna út, hafa þrjú framboð þegar borist. Frestur til að skila framboðum rennur út á miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 15. janúar.

Annað framboðið sem við kynnum hér er frá félaga #857 sem gekk í félagið árið 2013, Sigurði Kristjánssyni. Til að kynna sig og sögu sína, bað stjórnin hann um að setja nokkur orða á blað sem við birtum hér.

Sigurður Kristjánsson með einn vænan

Ég byrjaði að veiða í kringum sex ára, fyrir um 37 árum. Þá var þetta helst maðkadorg og mig minnir að það hafi verið í einhverju af vötnunum uppi á Litlafjallsmúla í Borgarfirði en amma og afi voru með bústað þarna uppfrá og veiddu mikið í Langá og í vötnunum í kring. Ætli ég hafi ekki byrjað að kasta flugu þegar ég var 12 ára og að hnýta á svipuðum tíma. Lærði að kasta hjá félagi sem var með kastæfingar í íþróttahúsi Kennaraháskólans (gott ef það voru ekki Ármenn) og lærði mikið að hnýta með því að hanga í Litlu Flugunni á Laugarnesveginum og fá tips hjá þeim sem þar komu. Hef alla tíð verið mest í silungsveiði og mest í vötnum og ám hérna í kringum Reykjavík en reyni að komast sem oftast upp á hálendi til að veiða þar og hafa Veiðivötn verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan ég kynntist þeim. Þar hef ég átt mínar bestu veiðistundir og veitt mína stærstu fiska. Hef verið að fara svona 3-5 lengri veiðitúra á sumri og svo eins marga skreppitúra í kringum borgina eins og ég kemst, en ég valdi mér náttúrulega ferlega vitlaust starfssvið fyrir veiðimann þar sem sumarfrí og garðyrkja fara ekkert of vel saman Ég er líka í námi í náttúrufræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og bind vonir við að það muni gera mér kleift að tengja betur atvinnu við áhugamálið.

Við höldum síðan áfram að kynna hér framboð til stjórnar innan tíðar.

Leave a Reply