Framboð til stjórnar – Sigurjón Þorvaldsson

Þriðja framboðið til stjórnarkjörs á næsta aðalfundi Ármanna er frá manni sem gestir Árósa þekkja mæta vel, félaga #880 Sigurjóni Þorvaldssyni. Eins og fram kemur í pistli Sigurjóns, gekk hann í félagið árið 2015 og var fljótlega vélaður í Húsnefnd Árósa þar sem hann hefur starfað ötullega síðan.

Fyrstu minningar mínar við stangveiðar eru með pabba og bræðrum mínum þegar ég var yngri. Þá veiddi ég með kaststöng, en pabbi veiddi nær eingöngu á flugu.

Ég fékk fyrstu fluguveiðistöngina mína í jólagjöf. Hún lá reyndar nánast ónotuð í mörg ár, þar til eitt sumar í Veiðivötnum að ég ákvað að veiða bara á flugu í túrnum. Síðan þá hef ég nær eingöngu veitt á flugu.
Aflabrögðin minnkuðu töluvert í fyrstu. Í raun veidd ég varla neitt, en veiðidellan jókst til muna.
Stuttu seinna fór ég á fluguhnýtingarnámskeið og í dag hnýti ég megnið af þeim flugum sem ég nota sjálfur.

Ég hef aðalega stundað silungsveiðar í stöðuvötnum. Seinasta sumar fór ég ferðir í Hlíðarvatn, Veiðivötn, á Þingvelli og upp á Arnarvatnsheiði. Hef líka farið svona eina til tvær ferðir að veiða í ám síðastliðin sumur.

Ég gekk í Ármenn fyrir rúmlega 3 árum síðan. Það sem heillar mig mest við Ármenn er þessi góði andi sem er í félaginu og öflugt félagsstarf. Vonandi get ég lagt mitt af mörkum til þess að halda því áfram.

Hafa þau þrjú framboð sem bárust til stjórnarkjörs þá verið kynnt og ljóst að stjórn Ármanna mun búa að sterkum nýliðum næstu árin.

Skildu eftir svar