Fiskirækt að Fjallabaki

Félagar sem hyggja á ferðir í sumar inn að Löðmundarvatni eru hvattir til að skrá fyrirhugaðar ferðir, hvort sem þær eru til lengri eða skemmri tíma. Vinsamlegast athugið að skráningar eru öllum sjáanlegar, nota má upphafsstafi eða félagsnúmer sé nafnleyndar óskað á forminu hér að neðan:

SKRÁNING Í FISKIRÆKT

Fréttir frá 2021

14.07.2021 – Nú hafa verið farnar þrjár ferðir inn að Löðmundarvatni til grisjunar.  Lærdómsferðin var farin helgina 26. – 27. júní og þrátt fyrir leiðindaveður náðust upp 46,8 kg í netin. Tilraunaferð með dragnót var farin dagana 28. – 29. júní og segja má að sú tilraun hafi gengið vel en heildartala ferðarinnar var 408 kg.  dagana 8. – 11. júlí var svo farin blönduð dragnótar/netaferð og var heildartala þeirrar ferðar 170,5 kg. Heildarafli þessarra þriggja ferða eru því 625,3 kg sem er rúmlega þriðjungur þess sem við stefnum á að ná að lágmarki en það eru eins og síðustu tvö ár 1720 kg.

Áunnið / markmið sumarið 2020

░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░  438 / 1720 kg.
░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░░  3207 / 12700 stk.

Fréttir frá 2020

30.8.2020 – Tveir Ármenn voru við Löðmundarvatn frá föstudagskvöldi og fram undir hádegi á sunnudag og lögðu 7 lagnir, samtals 16 net. Upp úr þeim komu 82,7 kg / 478 stk. sem gera meðalvigt upp á 137 gr. Hæsta meðalvigt var í neti með riðil 21,5 mm 196 gr. Bleikjan er farin að huga að hrygningu og því voru allar lagnirnar lagðar sem næst hrygningarstöðvunum, svæði 1, 2, 3 og 4 auk þess sem ein lögn varð lögð á svæði 7 og gaf hún ekkert síður en hinar lagnirnar.

Næsti hópur er beðinn um að athuga að taka tvo eða þrjá poka af salti með inn að Landmannahelli þar sem bæta má verulega ofan á það sem komið er í karið og byrja á nýju kari. Pokana má nálgast í Árósum, vinsamlegast hafið samband við stjórnarmenn eða hússtjórn til að nálgast saltið.

17.8.2020 – Vaskur hópur Ármanna var við Löðmundarvatn um liðna helgi í blíðviðri. Lagðar voru 14 lagnir yfir helgina sem skiluðu 102,9 kg / 786 stk. upp úr vatninu. Það sem hefur áunnist í sumar lætur nærri að vera um fimmtungur þess sem að er stefnt, en með nokkrum góðum helgum, já eða virkum dögum má lyfta þessu hlutfalli verulega. Langtímaspá næstu 10 – 15 daga sveiflast nokkuð, en það má örugglega finna góða daga ef vel er gáð þannig að það er bara um að gera að smella sér í hálendisferð, leggja góðu starfi lið og njóta frábærra veiðivatna.

9.8.2020 – Veður og tíðafar hefur aðeins verið að angra félagsmenn inni við Löðmundarvatn í sumar og þannig var það þessa helgi líka. Þó náðist að setja niður 7 lagnir og úr þeim komu 37 kg / 272 fiskar.

4.8.2020 – Verslunarmannahelgin var vel nýtt við Löðmundarvatn, tveir félagar lögðu fyrstu lagnir á fimmtudagskvöld, liðssinni barst síðan á laugardag og heill hópur félagar og gesta lagði gjörva hönd á plóg á sunnudaginn þegar tekið var upp um hádegið. Þrír félagar kláruðu síðan helgina með því að taka upp á mánudaginn, þrífa bát og búnað og ganga frá áður en haldið var heim á leið. Lagðar voru sólarhringslagnir en vegna veðurskilyrða á föstudag var horfið frá því að vitja um að kvöld eins og áformað var, þess í stað var vitjað um fyrripart alla dagana. Afrakstur helgarinnar var 93,35 kg / 801 fiskur. Samtals eru þá komin 215 kg / 1671 fiskur í grisjun þetta sumarið.

26.7.2020 – Hópur Ármanna var inni við Löðmundarvatn dagana 24. – 26. og lögðu samtals 12 lagnir. Afrakstur ferðarinnar var 56,2 kg sem taldi 439 fiska. Þá eru samtals komin 122 kg á land, aðeins fimmtánhundruð og eitthvað kíló eftir.

18.7.2020 – Það gránaði aðeins í fjöll aðfararnótt laugardagsins 18. júlí þegar 10 Ármenn voru við Landmannahelli í Lærdómsferðinni. Hitastig féll nokkuð hressilega víða á hálendinu og það setti mark sitt á aflatölur ferðarinnar, 20,1 kg komu á land í þessari ferð og það sem kom upp úr daglögn laugardagsins var sögulega lélegt. Strekkings vindur var víða á svæðinu, en Löðmundur veitti þó skjól þeim harðduglegu félögum sem voru á svæðinu.

12.7.2020 – Fyrstu eiginlegri grisjunarferð sumarsins lauk í dag. Tveir félagar settu niður tilraunalögn á föstud.kvöldið og bættu síðan tveimur lögnum við um hádegi á laugardag. Þriðji félaginn við annan mann mætti síðdegis á laugardag og þá voru lagðar fullar þrjár lagnir sem teknar voru upp á hádegi sunnudags. Samtals komu úr þessum netum 306 fiskar sem vógu 45,8 kg. Næsta áætlaða ferð, svo fremi félagar taki sig ekki til í vikunni, er áætluð dagana 18. – 19. júlí.

5.7.2020 – Mikið hefur hlánað við Landmannahelli og fært er orðið inn að Löðmundarvatni. Tjaldsvæðið framan við Landmannahelli hefur verið tekið í gagnið.

30.6.2019 – Fjölmennur félagsfundur ákvað að stefna á fyrstu ferðir eigi síðar en 5. júlí og efna til s.k. Lærdómsferðar helgina 18. – 19. júlí.

Nokkur praktísk atriði

  • Athugið með gistingu í skála áður en ferð er ákveðin. Senda má tölvupóst á info@landmannahelli.is eða hringja í síma 893-8407
  • Munið eftir að taka kvittun fyrir gistingu og senda afrit af henni á armenn@armenn.is með upplýsingum um kennitölu og bankanúmer greiðanda
  • Gott er að láta vita fyrirfram af ferðum inn að Löðmundarvatni á skráningarforminu hér að ofan
  • Best nýting á netalögnum og búnaði fæst ef ferðir ná saman, þ.e. hópur leggur net í lok ferðar sem næsti hópur vitjar um við komuna að kvöldi eða næsta morgun
  • Skráið afla í aflabók (ekki veiðiskýrslu) í skemmunni við Landmannahelli

Fiskirækt að Fjallabaki – Stöðufundur 30.06.2020

This slideshow requires JavaScript.

Upplýsingar um fiskirækt í Framvötnum

This slideshow requires JavaScript.

Áunnið / markmið sumarið 2019

██████████████████████████████████████████████████████████████████░░░░░░░░░░░░░░░░░░  1720 kg.
███████████████████████████████████████████████████████████████████░░░░░░░░░░░░░░░░  12.700 stk.

Fréttir frá 2019

16.9.2019 – Fiskirækt að Fjallabaki er lokið að þessu sinni. Í dag (mánudag) hefst frágangur fyrir veturinn við Landmannahelli og fiskikörin verða færð til byggða þar sem afrakstur sumarsins nýtist bústofni bænda í vetur. Um næstu eða þar næstu helgi verður gengið endanlega frá búnaði, hann þrifinn og komið í geymslu fyrir veturinn. Endanlegar tölur úr átakinu liggja ekki fyrir, en fljótlega verða teknar saman ýmsar gagnlegar upplýsingar úr þeirri skráningu sem samviskusamlega hefur verið viðhöfð að Fjallabaki í sumar og aflaskráningu komið til Hafrannsóknastofnunar á Selfossi.

8.9.2019 – Það var viðvera í Löðmundarvatni frá fimmtudegi og fram á daginn í dag (sunnudag) og sú viðvera gaf 179 kg. / 1.232 fiska og þá eru heildartölurnar komnar upp í 1.351 kg. / 10.304 stk. og það sem meira er; Þeir sem nenna geta mætt inn að Landmannahelli fram í síðustu helgi september og lagt þessu verkefni lið og þar með lagt sitt að mörkum að ná þessum 369 kg. sem standa eftir af markmiði þessa árs.

25.8.2019 – Vegna veikinda komust aðeins tveir af boðuðum fjögurra manna hópi um þessa helgi í Löðmundarvatn. Þeir létu þó ekki sitt eftir liggja, náðu 92 kg. / 424 stk. upp úr vatninu. Að eigin sögn voru þessir tveir alsendis ókunnugir silunganetum, mótor og meðferð veiðarfæra, en höfðu bara gaman að öllu þessu brasi og létu ekki smá rigningu og gust aftra sér. Samtals eru því komin 1172 kg. / 9.072 fiskar upp úr Löðmundarvatni og ósjálfrátt leitar hugur sumra Ármanna að lokatölum úr Veiðivötnum sem komu fram í síðustu viku. Það væri nú skemmtilegt ef Löðmundarvatn eitt væri með fleiri veiddar bleikjur heldur en Veiðivötnin öll til samans því þar veiddust 10.734 bleikjur í sumar. Það vantar því aðeins aumar 1.663 bleikjur til að slá vötnunum norðan Tungnaár við þetta sumarið.

14.8.2019 – Áttundi hópur vinnuglaðra Ármann tók við af þeim sjöunda s.l. sunnudag. Veðurspá var tvísýn en hópurinn var gallvaskur og náði (óstaðfest) 66 kg. / 555 stk. upp úr vatninu, sem verður að teljast harla gott í vindi upp á 10 m/sek. Tveir Ármenn hafa boðað vinnuferð um komandi helgi, þ.e. 16. – 18. ágúst. Gaman væri nú að félagar legðu þeim hópi lið og bókuðu sig hér að ofan.

11.8.2019 – Sjöunda vinnuferðin inn að Löðmundarvatni var farin um helgina og náði 129 kg. / 1069 stk. í grysjun og þar með var tonnið rofið. Upp úr vatninu er komin 1.014 kg. / 8.093 stk. sem gerir meðalvigt upp á 125 gr. Þessi ferð var skipulögð með það í huga að samnýting næðist á milli tveggja hópa þannig að í stað þess að taka öll net upp á sunnudag og ganga frá búnaði, þá næðist að leggja lagnir sem næsti hópur gæti tekið við og dregið á land það kvöld. Þegar þetta er ritað er því næsti hópur að störfum og beðið er frétta af þeirra afla.

3.8.2019 – Teymi tveggja bjargvætta var við störf í Löðmundarvatni dagana 31. júlí til 2. ágúst og þeir félagar náðu þeim merka áfanga að draga þau kíló á land sem þurfti til að ná helmingi ætlaðs magns og raunar vel það. Þessir tveir vösku félagar náðu 954 stk. sem áætlað er að hafi vegið 124 kg. og þar með er heildarafli orðinn 885 kg. Þessu til viðbótar náðu þeir félagar að endurheimta þær tvær lagnir sem glötuðust í síðustu ferð og í ljós kom að þær tvær höfðu verið að fiska allan þann tíma sem þær lágu ‘faldar’ í vatninu. Að vonum var það mikil vinna hjá þeim félögum að greiða úr þessum tveimur auka lögnum, en að sögn þótti þeim bara gaman að þessu öllu.

29.7.2019 – Fimmta vinnuferðin var dagana 25. til 29. júlí og var afrakstur hennar 143 kg. / 1176 stk. sem verður að teljast harla gott sé tekið mið af því að veður hamlaði störfum lungað úr laugardeginum. Vindur og ‘sjólag’ var slíkt að ekki reyndist viðlit að vitja um net síðla laugardags með þeim afleiðingum að tvær netalagnir af þremur fundust ekki þegar unnt var að vitja þeirra á sunnud.morgun. Heildarveiðin er komin í 761 kg. / 6070 stk.

22.7.2019 – Fjórði hópur Ármanna lauk störfum við Löðmundarvatn í gær og setti enn eitt metið í grisjun; 198 kg. / 1.494 stk. og er heildin því komin í 618 kg. / 4.894 stk. Besta lögn þessa hóps var kvöldlögn laugardagsins sem náði rúmum 74 kg. eða sléttum 600 fiskum.

18.7.2019 – Farnar hafa verið þrjár ferðir félagsmanna í Löðmundarvatn og grisjað hefur verið um 420 kg. / 3.400 stk. Allt frá fyrstu vinnuferð hefur meðalþyngd afla verið rétt um 123 gr/stk. en samsetning afla hefur verið að breytast nokkuð í þá átt að stærðardreifing hefur aukist. Þrátt fyrir þessa auknu dreifingu hefur hlutfall kynþroska fisks ekki hvikað frá því að vera á bilinu 85 – 90%.

Meðal þyngd fiska í rannsóknaveiðum Hafrannsóknastofnunar árið 2018 var 136 gr. og áætlað að grisja þyrfti vatnið um 1.720 kg. eða u.þ.b. 12.700 einstaklinga.