Hlíðarvatn í Selvogi

Hlíðarvatn í Selvogi er stöðuvatn rétt yfir sjávarmáli í vestanverðum Selvogi og að mörgum talið drottning silungsvatna á Íslandi. Ármenn hafa sterkar taugar til Hlíðarvatns og skipar það sérstakan sess í öllu starfi félagsins.

Mesta dýpi þess er um 5 metrar og að flatarmáli er það rúmir 3,3 km2. Afrennsli þess er um Vogsós en vatnið sprettur upp úr hrauninu um ótal uppsprettur. Hlíðarvatn er afar gjöfult veiðivatn og þar veiðast á sumri hverju bleikjur í þúsundatali. Þar er um að ræða staðbundinn fisk sem þykir afar ljúffengur og skemmtilegur við að eiga. Flestir eru fiskarnir 0,5-1 pund en á sumri hverju veiðast fáeinir 5 punda fiskar og jafnvel stærri.

Veiðitími og viðverutími í Hlíðarseli er frá klukkan 18 deginum fyrir úthlutaðan veiðidag til klukkan 18 veiðidaginn sjálfan. 

Staðsetning: Í Selvogi, milli Krýsuvíkur og Þorlákshafnar. Vegalengd frá Elliðaárbrúm er rúmlega 60 km um Þrengsli en 55 km um Krýsuvík.
Veiðisvæði: Allt vatnið niður að brú á Suðurstrandarvegi utan hólmanna við Stakkavík sem eru friðaðir á varptíma fugla. Veiði neðan flundrustíflu við Suðurstrandarveg er ekki heimil.
Stangafjöldi: Ármenn hafa á sínum snærum þrjár stangir í vatninu.
Veiðitímabil: 2. maí – 30. september, að undanskildum sunnudeginum 11. júní 2023 sem er Hlíðarvatnsdagurinn.

Kaupa
veiðileyfi

Veiðitími: Veiðimenn mega hefja veiðar kl. 18:00 kvöldið fyrir skráðan veiðidag og ljúka þeim sólarhring síðar. Að öðru leyti er veiðitími frjáls. Veiðimenn kvitti fyrir veru sína við vatnið í dagbók veiðihússins.
Leyfilegt agn: Fluga. Nefna má Peacock, Krók, Alexöndru, Alder, Butcher, Kardínála og Flæðarmús.
Veiðihús: Stendur undir hlíðinni vestanverðri, upp af Botnavík. Þar er snyrting, tvö herbergi með 2 kojum hvort, svefnloft, eldhúsbekkur með gashellu, borðbúnaði og áhöldum, forstofa og gott úti-gasgrill. Taka þarf með sér rúmfatnað/svefnpoka, borðtuskur og viskastykki. Lyklar að húsi eru geymdir á krók við útihurðina.
Reglur: Húsinu skal skila hreinu til næstu veiðimanna eigi síðar en kl. 18:00 og taka með sér allt rusl. Athugið að lausaganga hunda við vatnið er stranglega bönnuð og séu hundar hafðir í húsinu mega þeir einungis dvelja í forstofurými. Veiði má einungis stunda frá landi og er veiði frá bát óheimil vegna ónæðis fyrir þá sem veiða frá landi. Þó er heimilt að nota belgbát (belly boat), nema inni á víkum, svo sem í Botnavík. Þeir veiðimenn skulu þó víkja fyrir veiðimönnum í landi og halda sig í 50 metra fjarlægð frá næsta veiðimanni.
Veiðikort: Liggur frammi i veiðihúsi og hér á síðunni.
Veiðibók: Liggur frammi í veiðihúsi og er mikilvægt er að skrá allan afla. Menn eru vinsamlegast beðnir að skrá þar nöfn sín, en ekki einungis félagsnúmer.
Bæklingur: hér má sækja bækling veiðifélaganna við vatnið.
Veiðiumsjón: Hlíðarvatnsnefnd, símanúmer hanga á vegg í veiðihúsinu.

Smellið á mynd fyrir fulla upplausn