Hnausatjörn í Vatnsdal

Ármenn hafa samið um veiðileyfi fyrir félagsmenn sína í Hnausatjörn í Vatnsdal frá 20. apríl til 30. júní sumarið 2023.

Hnausatjörn er lítið vatn í landi Hnausa í Vatnsdal á mótum þjóðvegar 1 og eystri Vatnsdalsvegar. Fiskgengur lækur rennur í það úr Flóðinu og annar, Árfar, úr því og út í Vatnsdalsá. Þar veiðist bæði staðbundinn og sjógenginn urriði og bleikja af ýmsum stærðum.

Veiðileyfi eru Ármönnum að kostnaðarlausu og má veiða á 2 stangir. Þar sem félagsskírteinin eru orðin rafræn skulu Ármenn sem halda til veiða skrifa félagsnúmer sitt á miða og hafa sýnilegan í bílnum. Bílastæði fyrir Hnausatjörn eru á gámastæði ofan vegar og verður þar komið fyrir dagbók í kassa sem menn eru beðnir að skrá afla samviskusamlega í.

Ef dagbókarkassinn er ekki kominn upp þegar fyrstu menn mæta, vinsamlegast sendið upplýsingar í gegnum vefsíðuna hér. 

Þetta er tilraunaverkefni og hugsað sem áningarstaður á hringveginum þar sem menn geta teygt úr sér og tekið nokkur köst eða fleiri eftir aðstæðum. Mikilvægt er að menn deili reynslu sinni með félagsmönnum svo hægt sé að taka góðar ákvarðanir um framhaldið. Utanumhald verður ekki mikið en treyst á siðareglur Ármanna.