Ármaður virðir: Íþrótt, bráð, land og annan mann.
Reglurnar eru aðeins gagnorð lýsing, við hæfi fullorðinna, á kurteisi veiðimannsins og ber að túlka þannig:
- Ármaður, sem veiðir eingöngu á flugu, metur íþrótt umfram aflamagn. Hann hlítir veiðireglum í hvívetna, er hófsamur í veiði og fer vel með feng.
- Hann ræðir af háttvísi um veiðibráð, fer með gát að öllu lífi, nýtur veru sinnar við veiðivatn og skilur ekki eftir annað en sporin sín.
- Ármaður deilir veiðigleði með félögum sínum, berst lítt á við veiðiskap og er hæverskur áhorfandi.
- Ármaður gengur frá veiðihúsi hreinu, virðir vel bónda og lokar hliðinu á eftir sér.
LÖG ÁRMANNA
Endurskoðuð og samþykkt á aðalfundi félagsins 9. mars 2022.
I. Um félagið
1. grein
Heiti félagsins og varnarþing
Nafn félagsins er Ármenn. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Markmið
Markmið félagsins er að:
a. auka hróður þeirrar íþróttar að veiða vatnafisk á flugu,
b. efla virðingu veiðimanna fyrir íslenskri náttúru,
c. hvetja til góðrar umgengni, hófsemi við veiðar og háttvísi á veiðislóð,
d. stuðla að því að félagar geti stundað stangaveiði fyrir hóflegt verð,
e. auka rétt almennings til veiða á stöng í almenningum og þjóðlendum.
3. grein
Verkefni
Markmiðum sínum hyggst félagið ná m.a. með því að:
a. taka á leigu eða eignast veiðiréttindi til sanngjarnrar framleigu til félaga,
b. halda uppi öflugu félagsstarfi meðal fluguveiðimanna og fjölbreyttri fræðslu um fluguveiðar og íslenska náttúru,
c. auka skilning almennings og stjórnvalda á markmiðum félagsins,
d. taka þátt í samstarfi við þá sem vinna að sambærilegum markmiðum, og
e. styðja eftir efnum rannsóknir á lífríki fiska í náttúru Íslands.
II. Félagar og gjöld
4. grein
Félagar og aðild
Félagar geta orðið þeir einstaklingar sem skráðir eru með íslenska kennitölu.
Við inngöngu skuldbinda þeir sig til að fara að lögum og siðareglum félagsins
Inntaka nýrra félaga er háð samþykki stjórnar.
Félagar í einstökum landshlutum geta myndað deild í félaginu, enda velji þeir sér umboðsmann er komi fram gagnvart stjórn félagsins.
Hver félagi öðlast félagsnúmer við inngöngu. Félagi getur arfleitt eða gefið öðrum númer sitt í félaginu.
Börn, yngri en 18 ára og makar fullgildra félagsmanna geta gerst félagar og greiða þá hálft árgjald.
Enginn félagi ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum til þess. Enginn félagi á tilkall til hluta af sjóðum félagsins eða öðrum eignum þess, þótt hann hverfi úr félaginu.
5. grein
Félagsgjöld o.fl.
Nýr félagi greiðir árgjald við inngöngu í félagið og telst þá fullgildur félagsmaður. Árgjald skal ákveðið á aðalfundi. Gjalddagi árgjalds er 1. janúar. Aðeins skuldlausir félagar fá úthlutað veiðileyfum. Skuldi félagi árgjöld fyrir tvö ár eða meira má stjórnin fella hann af skrá.
Umsækjandi um aðild að félaginu eftir lokun veiðisvæða greiðir fyrst félagsgjald árið eftir.
III. Stjórn, skipulag, fundir o.fl.
6. grein
Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málum félagsins. Á milli aðalfunda fer félagsfundur með það vald.
Félagið kýs á aðalfundi sex manna stjórn auk formanns sem stýrir félaginu milli aðalfunda. Formaður skal kjörinn sérstaklega.
Formaður og aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára.
Stjórnarmenn skulu ekki sitja í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil samfellt.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
a. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b. Fundargerð síðasta fundar.
c. Skýrsla formanns um starfsemi stjórnar og fastanefnda.
d. Endurskoðaðir reikningar.
e. Lagabreytingar.
f. Ákvörðun árgjalds.
g. Kosning formanns.
h. Kosning stjórnarmanna.
i. Kosning skoðunarmanna reikninga.
j. Önnur mál.
7. grein
Boðun aðalfundar
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. mars ár hvert. Stjórn félagsins boðar til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins, með rafpósti eða með öðrum tryggum hætti.
Aðalfundur er lögmætur sé hann löglega boðaður. Tillögur til lagabreytinga og stjórnarkjörs skulu sendar stjórn rafrænt eða skriflega fyrir 15. janúar og sendir stjórnin félagsmönnum þær með fundarboði. Ekki verða greidd atkvæði um aðrar tillögur til lagabreytinga en þær sem sendar eru með fundarboði og breytingartillögur við þær.
Endurskoðaðir ársreikningar félagsins skulu aðgengilegir félagsmönnum viku fyrir aðalfund. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember.
Rétt til setu á aðalfundi, kosningarétt og kjörgengi hafa allir skuldlausir félagar.
8. grein
Stjórn og verkefni hennar
Stjórn félagsins skipa sjö menn, formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri, auk þriggja meðstjórnenda, en að öðru leyti skipar stjórnin með sér verkum. Einn stjórnarmaður skal sitja í húsnefnd.
Stjórnin heldur fundi að jafnaði mánaðarlega yfir vetrartímann. Annars boðar formaður til stjórnarfundar þegar þörf krefur eða þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundi má halda rafrænt. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.
Stjórn getur kallað til nýjan stjórnarmann til stjórnarsetu ef stjórnarmaður forfallast, þar til kosið hefur verið um nýjan stjórnarmann á næsta aðalfundi.
Verksvið stjórnar er að sinna málefnum félagsins milli aðalfunda og annast framkvæmdir í samræmi við samþykktir aðalfundar. Hún semur um veiðirétt, rekstur veiðisvæða, hefur umsjón með störfum nefnda og sér um almennan rekstur félagsins.
Allar meiriháttar framkvæmdir, verkefni og fasteignakaup eru háð samþykkt löglegs félagsfundar.
Stjórn er heimilt að nota rafræn samskipti sín á milli og við aðra félagsmenn.
9. grein
Félagsfundir
Til félagsfunda skal boðað þegar þörf krefur, skv. ákvörðun meirihluta stjórnar eða þegar minnst 1/5 hluti félagsmanna óskar þess. Fund skal boða sambærilegum hætti og aðalfund, með minnst viku fyrirvara nema brýnar ástæður séu fyrir skemmri fresti.
Fundarefnis skal getið í fundarboði. Á almennum félagsfundum má ekki afgreiða mál sem heyra undir aðalfund samkvæmt lögum þessum.
Stjórn er heimilt að ákveða að félagsmenn geti tekið þátt í fundarstörfum funda þ.m.t. aðalfundar með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað.
Stjórn er heimilt að ákveða að félagsfundur verði aðeins haldinn rafrænt. Ákveði stjórn að nýta þessa heimild skal þess sérstaklega getið í fundarboði.
Sé fundur haldinn að hluta eða öllu leyti rafrænt skal leitast við að tryggja að félagsmenn geti tekið þátt í fundarstörfum og atkvæðagreiðslu.
Í fundarboði skal taka fram hvernig félagsmaður tilkynni þátttöku sína í fundinum, fyrirkomulag atkvæðagreiðslu og aðrar upplýsingar sem máli skipta.
10. grein
Nefndir
Í félaginu skal starfrækja húsnefnd og Hlíðarvatnsnefnd. Stjórn skipar fulltrúa í nefndir og ákveður fjölda þeirra. Skipa skal fulltrúa til eins árs í senn. Hætti nefndarmaður störfum áður en skipun líkur skal skipa nýjan nefndarmann til loka skipunartímans.
Húsnefnd skal annast umsjón og ber ábyrgð á rekstri félagsheimilis Ármanna. Nefndin setur sér starfsreglur sem samþykktar skulu af stjórn.
Hlíðarvatnsnefnd skal annast umsjón og ber ábyrgð á rekstri veiðihúss félagsins við Hlíðarvatn. Nefndin setur sér starfsreglur sem samþykktar skulu af stjórn.
Allar meiriháttar ákvarðanir nefnda vegna rekstrar skal bera undir stjórn.
Stjórnin hefur heimild til að skipa aðrar nefndir, sem sjá um afmörkuð verkefni í starfsemi félagsins sem og fulltrúa til að gæta hagsmuna þess á öðrum vettvangi.
11. grein
Félagsheimilið Árósar
Félagið rekur félagsheimilið Árósa vegna starfsemi þess og í þágu félagsmanna til fræðslu um veiðar, lífríki, fluguhnýtingar og skemmtanahalds.
Húsnefnd ber ábyrgð á rekstri þess skv. umboði stjórnar.
Heimilt er að nýta félagsheimilið vegna viðburða á vegum einstakra félagsmanna sem samræmast markmiðum félagsins. Einnig má leigja það til þriðja aðila í sama skyni.
Leigja má húsnæðið til félagsmanna í samræmi við reglur sem stjórn samþykkir enda hafi það ekki áhrif á starfsemi þess.
IV. Veiðireglur o.fl.
12. gr.
Veiðitæki og gestir
Ármenn skulu veiða aðeins á flugu og fluguveiðitæki á veiðisvæðum félagsins.
Þeim er heimilt að bjóða gestum til veiði með sér með sömu skilyrðum og skal kynna þeim siðareglur félagsins. Börn Ármanna, sem eiga þess ekki kost að fylgja ákvæði um veiðar með fluguveiðitækjum, mega nota önnur veiðitæki eftir því sem reglur viðkomandi veiðisvæðis heimila.
13. grein.
Úthlutun veiðileyfa
Ármenn skulu hafa forgang að veiðileyfum á veiðisvæðum félagsins. Að þeim frágengnum er stjórninni heimilt að selja veiðileyfi á almennum markaði og þá með þeim skilyrðum sem gilda á hverju veiðisvæði. Kynna skal kaupendum veiðileyfa siðareglur félagsins.
Félagsmanni er heimilt að framselja veiðileyfi sitt á kostnaðarverði. Kaupandi skal hafa kynnt sér siðareglur félagsins og undirgengist þær.
14. grein.
Viðurlög við brotum
Brjóti félagi lög félagsins, siðareglur eða aðrar reglur um veiðiskap, getur stjórnin svipt hann rétti til veiða á svæðum félagsins um lengri eða skemmri tíma. Við ítrekuð brot getur hún vikið honum úr félaginu.
Úrskurði stjórnar um brottvísun úr félaginu má skjóta til félagsfundar.
15. grein.
Slit félagsins
Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi og með samþykki meirihluta fullgildra félagsmanna. Við félagaslit renna eignir félagsins óskiptar til frjálsra félagasamtaka sem meirihluti fullgildra félagsmanna samþykkir.
16. grein.
Lagabreytingar og gildistaka
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.
Lög þessi öðlast gildi 9. mars 2022.
Þau eru efnislega byggð á upphaflegum lögum félagsins sem tóku gildi á stofnfundi 28. febrúar 1973, með síðari breytingum og endurskoðuðum lögum félagsins frá 13. mars 2019.