Framvötn

Framvötn eru í um 170 km. fjarlægð frá Reykjavík inni á Landmannaafrétti og eru í umsjá Veiðifélags Landmannaafréttar.

Félagsskírteini Ármanna gildir sem veiðileyfi í öll vötnin. Veitt er frá því fært er í vötnin um miðjan júní og meðan vakt er í Landmannahelli. Um aflabrögð má lesa í viðtali við Örn Daníelsson, sem birt er í desemberhefti Áróðs 2008. Einnig eru greinargóðar lýsingar á vötnum og aðstæðum í maí hefti Áróðs 2009 eftir Olgeir Benediktsson í Nefsholti.

Staðsetning: Vatnaklasi á Landmannaafrétti í um það bil 170 km fjarlægð frá Reykjavík, norðan og austan við Heklu.
Veiðisvæðið: Fjölbreytileg vötn sem gefa bæði bleikju og urriða. Þekktust vatnanna eru trúlega Frostastaðavatn, Löðmundarvatn og Ljótipollur. Önnur vötn á svæðinu eru; Hrafnabjargavatn, Sauðleysuvatn, Herbjarnarfellsvatn, Lifrarfjallavatn, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Hnausapollur, Blautaver og Kýlingavötn.
Veiðitímabil: Veitt er frá því fært er í vötnin um miðjan júní og fram í september, eða meðan ferðaþjónustan er opin í Landmannahelli. Utan þess tíma er hægt að fá gistingu eftir því sem færð og veður leyfir.

Verð: 0,- kr. fyrir Ármenn eingöngu.

Stangafjöldi: Ótakmarkaður.
Leyfilegt agn: Hér veiða Ármenn á flugu.
Veiðihús: Í Landmannahelli eru skálar í nokkrum stærðum þar sem góð aðstaða er til gistingar í svefnpoka. Húsin eru með upphitun, rennandi vatni, eldunaraðstöðu, vatnssalerni og útigrilli. Einnig er við Landmannahelli svæði fyrir tjöld, fellihýsi og húsbíla. Á heimasíðu Hellismanna má nálgast allar upplýsingar um aðstöðuna. Pantanir og fyrirspurnir í síma 893-8407.
Reglur: Félagsskírteini Ármanna gildir sem veiðileyfi í öll vötnin. Ármenn skulu framvísa félagsskírteini í Landmannahelli áður en veiðar eru hafnar og skila skýrslu um afla áður en farið er af svæðinu.
Veiðivarsla: Hellismenn við Landmannahelli.

Grisjun að Fjallabaki: Ármenn og Veiðifélag Landmannaafréttar hafa gert með sér samkomulag um átak í grisjun Löðmundarvatns til þriggja ára frá og með sumrinu 2019. Ármenn munu freista þess að grisja vatnið um ríflega 1.700 kg. á sumri undir vökulum augum fiskifræðinga Hafró á Selfossi sem munu veita ráðgjöf og faglegt mat á meðan á átakinu stendur. Allur afli verður flokkaður og skráður og reynt verður eins og kostur er að nýta hann til manneldis eða fóðurbætis fyrir skepnur.

Auk þessa átaks hefur Veiðifélag Landmannaafréttar ákveðið að veiði í Frostastaðavatni verði gjaldfrjáls sumarið 2019 og bæði heimilt að veiða á stöng og í net. Sömu kröfur um skráningu afla skal uppfylla í Frostastaðavatni eins og settar eru á Ármenn í Löðmundarvatni. Allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag má finna á heimasíðu Veiðifélags Landmannaafréttar, veidivotn.is

kort_framvotn